15.6.2011 | 10:57
Ég vil vera fallbyssufóður
Það hefur vakið styr í netheimum að norski herinn hafi stundað hausaveiðar hér á landi og haldið kynningar í íslenskum skólum fyrir ungt íslenskt fólk. Háværar raddir eru í netheimum um að þetta sé nú alveg skelfilegt, að enginn eigi að þurfa ganga í her til að stunda nám, að það sé ótækt með öllu að norski herinn sé að koma hingað og ná sér í fallbyssufóður osfrv. Í þessu sambandi, langar mig hér með að koma á framfæri nokkrum athugasemdum. Því miður er það þannig að oft glymur hæst í tómri tunnu og þeir sem tjá sig einna mest gegn því að íslenskir drengir og stúlkur gegni herþjónustu annars staðar, er fólk sem hefur einna minnst þekkingu og vit á því hvernig er að gegna herþjónustu. Fólk hefur oft hér á landi brenglaða ímynd af hermennsku sem byggist á því sem fólk sér í sjónvarpi og bandarískum bíómyndum.
1. Ísland er meðlimur í NATO. Noregur er meðlimur í NATO. Við sendum íslenska friðargæsluliða til átakasvæða eins og Íraks og Afganistan. Ef eitthvað kæmi fyrir Ísland, þá yrðu Norðmenn og Danir með þeim fyrstu til að taka á sig varnir landsins sem meðlimir í NATO. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Árni Þór Sigurðsson, lét hafa það eftir sér í fjölmiðlum í gær, að mjög óviðeigandi væri að norski herinn væri hér á hausaveiðum eftir íslensku fallbyssufóðri. En sem meðlimur í NATO, finnst okkur samt fullkomlega eðlilegt að ungir menn og ungar konur annarra þjóða séu fallbyssufóður fyrir okkur ef verja þarf landið okkar? Við erum sem sagt of góð til þess að taka þátt í vörnum lands okkar? Svona ómálefnalegt tal þjónar engum tilgangi og er okkur bara til skammar á alþjóðlegum vettvangi. Þá er alveg eins gott að segja sig bara úr NATO ef við erum of góð til þess að leggja okkar af mörkum innan bandalagsins. Við erum herlaus þjóð en við erum samt meðlimir í hernaðarbandalagi. Það virðist stundum gleymast.
2. Margir virðast halda að norskir hermenn séu sendir í átök víðs vegar um heiminn líkt og gert er við bandaríska hermenn. Það er einfaldlega ekki rétt. Að mörgu leyti má líkja herþjónustu norskra ungmenna við að vera eitt ár í skátunum. Það er mjög öruggt og gott að vera í skátunum. Það hreinlega má ekki senda norsk ungmenni í stríðsátök til annarra landa á meðan þau gegna herþjónustu og mjög strangar kröfur eru gerðar til þeirra sem sækja um að fá að gegna þjónustu erlendis. Norsk ungmenni eiga í mesta lagi á hættu að vera send landshluta á milli í Noregi. Það versta sem getur skeð á friðartímum er að vera sendur nyrst til Noregs en það var allavega ekki í uppáhaldi hjá hermönnunum þegar ég var í norska hernum. Krakkarnir fá frítt fæði og húsnæði, vasapening og möguleika á því að sækja um skólagöngu. Inntökuskilyrðin eru líka ströng í herskólana og því alls ekki gefið að maður komist þar inn. En ef við höldum okkur við herþjónustu í stríðsátökum; síðari heimsstyrjöldin líður Norðmönnum seint úr minni. Noregur var hertekið af Þjóðverjum í stríðinu en Bandaríkin hafa aldrei verið hertekin. Það má í raun segja að Bandaríkin búi til sín eigin stríð eins og í Írak og Afganistan og senda sína hermenn í átök þar. Bandarískir hermenn eru skyldaðir í þessi átök og hljóta grimm örlög í sínu heimalandi neiti þeir að sinna þessari skyldu. Norsk ungmenni eru ekki skylduð til neins nema að klára sína lögbundnu herþjónustu innan landamæra Noregs og ef til stríðs kæmi í Noregi eða vörnum Noregs yrði ógnað, þá fyrst kæmi til að norsk ungmenni yrðu skylduð í möguleg átök. Þá er líka allur herinn virkjaður; bæði ungmenni sem gegna herþjónustu og fólk eins og ég sem hef verið í hernum en við erum þá kölluð inn til að sinna vörnum landsins. En fari svo að föðurlandinu sé ógnað, er hæpið að nokkur manneskja myndi neita að leggja sitt af mörkum til að verja land og þjóð.
Sl ár hefur norski herinn byggt upp herdeild sem heitir Telemarksbataljonen. Sú deild var stofnuð til að mæta þörfum hersins fyrir atvinnuhermenn og er eina deild hersins sem algjörlega sérþjálfuð í að senda hermenn til útlanda. Fyrsta verkefni deildarinnar var í Bosníu en deildin hefur gefið af sér gott orð fyrir fagmennsku og góða hermenn. Þessi deild hefur tekið þátt í hörðum átökum í Afganistan sl ár en enginn er skyldaður í þessa herdeild og byggist hún alfarið upp á þeim sem bjóða sig fram og sækja um inngöngu í deildina.
3. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, gefst ungmennum kostur á því að sækja um inngöngu í ýmsa herskóla í norska hernum. Má þar nefna t.d. verkfræði, bifvélavirkjun, flugnám, kokkanám, flugvélavirkjun osfrv. Slík menntun er ókeypis að því leyti til að maður greiðir ekkert sérstaklega fyrir menntunina en skyldar sig í staðinn til að vinna fyrir norska herinn í þrjú ár eftir að skólagöngu er lokið. Það telst ódýr fórnarkostnaður að vinna á launum í þrjú ár fyrir ókeypis menntun. Íslensk námslán eru stór baggi á herðum margra Íslendinga. Áður fyrr gat maður ekki stundað nám nema með því að fá sér ábyrgðarmann fyrir námslánunum. Ég er sjálf ein af þeim sem sit uppi með mikil námslán því ég vissi ekki betur á sínum tíma en hefði ég þekkt betur inn á norska herinn, hefði ég ekki hikað við að sækja um inngöngu í nám þar. Ég skil ekki hvað fólk hefur á móti því að íslensk ungmenni hafi kost á því að sækja um inngöngu í skóla og fá ókeypis nám. Sumir segja að það sé alveg skelfilegt að fólk þurfi að fara í herinn til að stunda nám og að það séu grundvallarmannréttindi allra að stunda nám. Það er bara ekki nægilegt í dag að stunda nám á Íslandi. Hér ríkir mikið atvinnuleysi og lítið annað sem blasir við íslenskum ungmennum en atvinnuleysi, iðjuleysi og fátækt. Ég er sjálf menntaður lögfræðingur og fasteignasali og hef töluverðan reynslubanka. Það er ekki að gagnast mér í íslensku samfélagi í dag þar sem spillingin og vinavæðingin þrífst sem aldrei fyrr; atvinnuleysið er í hámarki á Suðurnesjunum en ég er búsett í Grindavík; ég er með lítið barn og vil helst geta unnið en samt ekki að vinna fullan vinnudag en slíkt er bara ekki í boði hér á landi fyrir íslenska lögfræðinga. Hér er maður bara ekki maður með mönnum nema vinna heilu og hálfu sólarhringana og vera sem mest fjarri fjölskyldu sinni, fórna sér gjörsamlega fyrir vinnuveitandann hvort sem hann er íslenska ríkið eða einkarekið fyrirtæki. Meira að segja er það orðið þannig hjá lögfræðingum hjá íslenska ríkinu að þeir fá varla greitt fyrir yfirvinnu en það telst samt sjálfsagður hlutur að þeir taki á sig yfirvinnuna þegjandi og hljóðalaust. Eftir nám í norskum herskóla, getur viðkomandi sinnt sinni vinnu í norska hernum og líka átt eðlilegt fjölskyldulíf. Viðkomandi getur svo ef hann/hún óskar þess, hætt í hernum eftir sín skylduár og farið út í atvinnulífið án þess að vera sligast með fleiri milljónir í skuld á bakinu. Er það ekki frábært fyrir þá sem fá þennan möguleika? Ég gæfi mikið fyrir að hafa ekki mín námslán á bakinu sem ég er ekki borgunarmanneskja fyrir í dag en þar sem faðir minn er í ábyrgð fyrir láninu, þá gerir maður allt sem í sínu valdi stendur til að reyna bjarga málunum.
Ég unni íslenskum ungmennum að fá frítt nám, að hafa örugga vinnu og að geta farið út í lífið án þess að vera sligast af skuldum. Það er eigingirni ef fólki finnst eitthvað annað.
4. En þegar uppi er staðið, er það auðvitað eins og einn lögfræðingur benti mér á, spurning um valfrelsi einstaklingsins, þ.e. að við og íslensk ungmenni, eiga að hafa val um hvað þau vilja gera við líf sitt. Íslensk stjórnvöld eiga ekki að stjórna því hvað við viljum gera við líf okkar. Ríkisstjórn Íslands og sitjandi Alþingi hafa svo sannarlega reynt að skipta sér af okkar lífi sl ár án þess að það hafi gefið góðan árangur. Það er allt gert núna til að hefta frelsi einstaklingsins hér á landi með öfgakenndri löggjöf og öfgakenndum stjórnarháttum og á sama tíma er allt gert til að verja fjármálafyrirtækin og þá sem eiga völd og peninga eins og útgerðirnar. Millistéttin fer smátt og smátt að þurrkast út, fólk eins og ég og maðurinn minn erum að verða fátæk og þeir ríku verða bara ríkari. Já, ég hefði frekar átt að hafa vit á því að fara í herskóla og gerast fallbyssufóður heldur en að koma aftur til Íslands og læra lögfræði og verða atvinnulaus og föst í steynsteypu í Grindavík. Ég væri mun betur sett sem fallbyssufóður en hvítur þræll í skuldafangelsi á fangaeyjunni Íslandi.
Athugasemdir
Vel mælt, íslendingar virðast ekki hafa meira álit á sínum ungmennum, en að þeir geti ekki ákveðið sjálfir hvaða líf þeir kjósa.
Þetta er farið að minna illilega á ónefndar þjóðir sem að segja fólki fyrir frá vöggu til grafar hvað þeim er fyrir bestu.
Hvað varð af persónufrelsinu.
Hrefna (IP-tala skráð) 18.6.2011 kl. 18:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.